Categories
Greinar

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Deila grein

24/04/2016

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraÍ nýjasta tölublaði blaðsins Vestfjarða er því haldið fram að fyrirhugaðar kosningar í haust valdi því að óvissa verði um framkvæmd Dýrafjarðarganga enn eina ferðina og að útboði verði mögulega frestað. Þetta er mikill misskilningur sem verður að leiðrétta.

Vestfirðingar hafa alltof lengi þurft að bíða eftir nauðsynlegum samgöngubótum. Árið 1999 gerði Vegagerðin skýrslu þar sem jarðgangnakostum var forgangsraðað og þar sem m.a. var horft til byggðaáhrifa. Þrjú jarðgöng voru efst á lista og voru Dýrafjarðargöng þar á meðal. Þrátt fyrir að framkvæmdir hefðu mátt hefjast miklu fyrr við að tengja norður- og suðurfirðina þá er það gleðiefni að loks séu framkvæmdir að fara að hefjast.

Engum dylst hve mikilvægt það er fyrir dreifbýlt svæði eins og Vestfirði sem lengi hefur átt undir högg að sækja, að hafa góðar samgöngur á milli helstu þéttbýlisstaða. Greiðar samgöngur eru forsenda þess að byggð þrífist og að fyrirtækin á svæðinu séu samkeppnishæf.

Í síðustu viku var samgönguáætlun til ársins 2018 lögð fram á þinginu og er það gleðiefni að stór hluti af nýframkvæmdum á landinu verði á Vestfjörðum. Þar eru Dýrafjarðargöng langstærsta framkvæmdin ásamt veglagningu yfir Dynjandisheiði sem verður ráðist í samhliða jarðgangnagerðinni og verður hvort um sig tilbúið árið 2020. Einnig sér fyrir endann á deilum sem hafa staðið um vegagerð í Gufudalssveit og er fjármagn tryggt í þær framkvæmdir um leið og þær geta hafist. Af öðrum verkefnum má nefna að fé er sett í Djúpveg á kaflanum frá Hestfirði og yfir í Seyðisfjörð, áfram verður unnið að veginum yfir Bjarnarfjarðarháls og hafist verður handa á Veiðileysuháls ásamt fleiri verkefnum.

Það er hins vegar alveg skýrt að stefna stjórnvalda eru að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust. Undanfarin ár hefur alltaf verið unnið í einum jarðgöngum í einu á landinu og nú sér fyrir endann á Norðfjarðargöngum. Það er breið samstaða um það að Dýrafjarðargöng séu næst í röðinni og því ættu fyrirhugaðar kosningar engu að breyta varðandi útboð á göngunum í haust.

Fleiri jákvæð teikn eru á lofti á Vestfjörðum, hringtenging ljósleiðara og sérstaklega má nefna raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Eitthvað segir mér að árið 2016 geti orðið upphaf nýrra tíma á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Greinin birtist á www.bb.is 24. apríl 2016.