Categories
Greinar

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Deila grein

18/07/2014

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Þorsteinn SæmundssonLesandi góður! Nú styttist óðum sá tími sem ætlaður er til að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum neytendalánum en frestur til að sækja um rennur út 1. september n.k.

Aðgerðin er hin stærsta sem gripið hefur verið til í því augnamiði að rétta hlut skuldara nokkurs staðar. Hún er almenn og byggir á jöfnuði og réttlæti. Skuldaleiðréttingin felst annarsvegar í beinni niðurfærslu skulda en hinsvegar í því að skuldarar geta nýtt viðbótarlífeyrissparnað sinn til niðurgreiðslu húsnæðislána í þrjú ár.

Aðgerðin nýtist best þeim sem hafa minni- eða meðaltekjur og eiga íbúð af hóflegri stærð. Þannig koma um 60% upphæðarinnar sem ætluð er til beinnar skuldalækkunar í hlut þeirra heimila sem hafa samtals 8 milljónir króna eða minna í tekjur á ári. Það samsvarar t.d. meðallaunum tveggja einstaklinga sem taka laun samkvæmt kjarasamningi BSRB.

Aðgerðin beinist að þeim sem urðu fyrir forsendubresti í verðbólguholskeflunni sem reið yfir í kjölfar hrunsins árin 2009 og 2010. Markmiðið með aðgerðinni er að rétta hlut þessa hóps nokkuð og gefa honum færi á að ná vopnum sínum aftur.

Aðgerðin mun lækka greiðslubyrði þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu og leiða til aukins kaupmáttar. Séreignarsparnaðarhluti aðgerðarinnar gagnast einnig þeim sem ekki eiga íbúð en freista þess að leggja fyrir og mynda þannig grunn að húsnæðiskaupum. Einnig má segja að notkun hluta séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðisskulda sé ein besta fjárfesting sem völ er á nú um stundir. Þann 1. júlí s.l. var hægt að hefja nýtingu séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána eða til að byggja upp sjóð til fasteignakaupa síðar.

Það er mikilvægt að allir sem telja sig eiga rétt á leiðréttingu sækist eftir henni. Fljótlega eftir 1. september n.k. mun ljóst verða hver leiðrétting hvers og eins verður. Þá fá íslensk heimili ný tækifæri til sóknar.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í DV þriðjudaginn 15. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.