Categories
Greinar

Fæðingar hér og fæðingar þar

Deila grein

20/04/2015

Fæðingar hér og fæðingar þar

Silja-Dogg-mynd01-vefFæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof, en ég lagði fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi vorþingi.

Löng bið

Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Réttlætismál

Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Hár dvalarkostnaður

Annað atriði sem ég tel þarf að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heima vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá á meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að bæta við rýmum á sjúkrahótelum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá mér um fæðingarþjónustu (https://www.althingi.is/altext/144/s/1073.html)  kom m.a. fram að fyrirhuguð bygging sjúkrahótels við Landspítalann nú á þessu ári og í undirbúningi er aðstaða fyrir fólk á sjúkrahóteli á Akureyri. Þannig að svo virðist sem hlutirnir séu að mjakast í rétta átt, sem er vel. Það er mín skoðun að á meðan  hið opinbera getur ekki útvegað fólki dvalarstað á sjúkrahóteli, verði að koma til móts við fólk með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Fólk ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum.

Frumvarp um breytingu á lögum um fæðingarorlof:

https://www.althingi.is/altext/144/s/1089.html

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir