Categories
Greinar

Fjármálastofnanir, sektir og samfélagsábyrgð

Deila grein

22/01/2015

Fjármálastofnanir, sektir og samfélagsábyrgð

ásmundurEkki er vafi á því að fjármálastofnanir voru þeir aðilar innanlands sem báru mesta ábyrgð varðandi hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Ljóst er nú að ekki var nógu varlega farið í góðærinu, hvorki hér á landi né í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Enn á eftir að ganga frá þrotabúum Kaupþings, Glitnis og Landsbankans. Heildareignir þrotabúanna eru rúmlega 2.500 milljarðar. Reiðufé búanna er tæpir 1.400 milljarðar.

Íslenskir bankar voru ekki einu bankarnir á síðasta áratug sem reknir voru á vafasaman hátt. Margvísleg mál er varða fjármálastofnanir hafa komið upp bæði austan hafs og vestan. Samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian frá nóvember sl. voru sektir á breska og bandaríska banka á árunum 2009-2013 um 34.000 milljarðar í íslenskum krónum. Í fréttum síðan í nóvember er sagt frá sektum upp á 2 milljarða punda en það eru um 400 milljarðar króna.

Af þessu má sjá að ríkisstjórnir geta látið banka sæta samfélagslegri ábyrgð sé pólitískur vilji fyrir hendi og sterk forysta.

Skipt um stefnu gagnvart bankavaldinu
Á meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var við völd var lítið sem ekkert gert til að knýja þrotabú gömlu bankanna að leggja sitt af mörkum til að bæta fyrir tjónið sem bankarnir bera sannanlega ábyrgð á. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG fannst aðrir hlutir brýnni en að rétta hlut almennings gagnvart fjármálakerfinu. Ríkisstjórn sem átti að heita vinstristjórn en hún sýndi fjármálastofnunum auðmýkt og undirgefni.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar breytti um stefnu gagnvart bönkum. Ríkisstjórnin ákvað að bankar skyldu látnir sæta aukinni ábyrgð og leggja fram sanngjarnan skerf til reksturs samfélagsins. Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra síðastliðið haust munu bankarnir greiða mest í skatta og sitja þrír bankar í efstu sætunum; Kaupþing, er greiðir 14,6 milljarða, Landsbankinn greiðir tæpa 13 milljarða og Glitnir greiðir tæpa 12 milljarða.

Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur veitti fjármálastofnunum nánast frítt spil en núna er annað upp á teningunum. Meirihluti framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á alþingi gerði fjárlagafrumvarpið þannig úr garði fyrir árið 2015 að áætlað er að tekjur ríkissjóðs af bankaskatti verði nálægt 39 milljörðum króna fyrir árin 2014 og 2015.

Það gengur ekki þrautalaust að knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna. Þrotabú gömlu bankanna hafa haft sig í frammi í umræðunni og þrotabú Glitnis hefur kært bankaskattinn til ríkisskattsstjóra. Þá eru ónefnt að margir telja að þrotabúin kaupi margvíslega aðkeypta þjónustu frá aðilum sem reyna sitt til að hafa áhrif á niðurstöðu mála í þágu bankanna.

Núverandi ríkisstjórn hefur staðið föst á þeirri stefnu sinni að bankarnir eiga ekki að vera stikkfrí frá því að skila til samfélagsins eðlilegu framlagi.

Sterk staða Íslands
Eitt stærsta verkefni stjórnvalda í dag er afnám gjaldeyrishafta. Markmið ríkisstjórnarinnar er að afnám haftanna valdi ekki kollsteypu í fjármálum þjóðarinnar. Veruleg undirbúningsvinna er að baki áætlunum um afnám hafta. Vinna þar undir handarjaðri ríkisstjórnar og Seðlabankans bæði erlendir og íslenskir sérfræðingar.

Þrotabú bankanna og uppgjör þeirra eru veigamiklir þættir í afnámi gjaldeyrishaftanna. Til skamms tíma var talað um að ef þrotabúin legðu ekki fram raunhæfar tillögur um uppgjör á búunum, þar sem tekið væri tillit til fjármálalegs stöðugleika, þá yrðu búin knúin til gjaldþrotaskipta.

Eftir því sem vinnu ríkisstjórnar vindur fram er orðið skýrara að fleiri verkfæri koma til greina en gjaldþrotaskipti til að halda ábyrgð að þrotabúunum. Útgönguskattur á fjármagnsflutninga er eitt ráð sem þekkt er alþjóðalega. Fordæmi eru um útgönguskatta á fjármagn upp á 20 til 50 prósent. Hugmyndir þessa efnis voru í umræðunni á síðasta kjörtímabili m.a. hjá Lilju Mósesdóttur o.fl. en fyrri ríkisstjórn fékkst aldrei til að fara þessa leið.

Lykilþáttur í sterkri stöðu Íslands er að lagaramminn okkar er traustur og við búum við krónu sem gjaldmiðil. Þrotabúin verða aðeins gerð upp í íslenskum krónum. Erlendir kröfuhafar þrotabúanna eru hægt en örugglega að átta sig á því að ríkisstjórninni er full alvara að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi. Það sést til dæmis á því að ýmsir þeir sem áttu stórar kröfur í þrotabúin seldu kröfur sínar seinni hluta ársins.

Bankarnir verða að læra að haga sér
Þrotabú föllnu bankanna og afnám haftanna eru tímafrek umræðuefni. Kastljósinu er síður beint að fjármálastofnunum sem endurreistar voru eftir hrun á grunni gömlu bankanna: Arion, Íslandsbanki og Landsbankinn nýi. Fyrstu dagar og vikur nýs árs leiða á hinn bóginn í ljós að ekki er vanþörf á að skerpa skilning starfandi banka á samfélagslegri ábyrgð sinni.

Þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi lækkað vexti undanfarið er misbrestur á að bankar hafi lækkað vexti til viðskiptavina sinna. Sumir bankar ganga lengra en að láta undir höfuð leggjast að skila stýrivaxtalækkun til skuldara. Þannig hækkaði Arion banki um áramótin vexti á verðtryggðum íbúðalánum. Ekki voru innlánsvextir hækkaðir með tilsvarandi hætti. Þar með jókst vaxtamunur bankans á kostað viðskiptavina sinna, sparifjáreigenda og skuldara.

Á síðasta ári óx vaxtamunur Arion banka um 0,20%. Hjá Landsbankanum og Íslandsbanka jókst vaxtamunurinn á sama tíma um 0,15%.

Tekjur bankanna jukust um tæplega milljarð vegna breytinga á vaxtamun í kjölfar lækkunar stýrivaxta, sem nú standa í 5,25%. Með þessum hætti hafa bankarnir mörg hundruð milljónir króna af almenningi.Verkalýðsfélög, t.d. VR, láta málið til sín taka og hafa beint fyrirspurnum til bankanna en fátt verið um svör. Augljóst er að bankarnir eru í þeirri stöðu að taka til sín fjármuni frá heimilunum í landinu með því að föndra við vaxtatöflurnar fyrir inn- og útlán.

Almenningur er berskjaldaður gagnvart ásælni bankanna enda haga fjármálastofnanir og þrotabú föllnu bankanna sér eins og ríki í ríkinu. Það hlýtur að vera eitt af stærstu verkefnum nýs árs að ríkisstjórn og löggjafi láti til sín taka á þessu sviði til að knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.