Categories
Greinar

Horfum á heildarmyndina af flugsamgöngum á landinu

Deila grein

15/05/2015

Horfum á heildarmyndina af flugsamgöngum á landinu

líneikSamgöngur skipta okkur Íslendinga öllu máli við að nýta tækifærin sem Ísland bíður upp á, margir sækja vinnu um langan veg og skipulag þjónustu er þannig að við reiðum okkur á samgöngur til að nýta hana.  Samgöngur eru því heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál og þannig mætti áfram telja.

Flugið hefur mikið vægi í samgöngum hér,  og skipulag þjóðfélagsins byggist á því að við komust hratt á milli landshluta og landa, svo ekki sé talað um að vöxtur atvinnulífsins síðustu ár byggir á verulegu leiti á flugi til og frá landinu.

Samvinna millilandaflugs og innanlandsflugs

Flugið um Keflavíkurvöll og sá skurðpunktur austur og vesturs sem þar hefur myndast gefur okkur ótal tækifæri sem mikilvægt er að hlúa að.   Samhliða uppbyggingu í Keflavík felast mikil tækifæri í að koma á millilandaflugi til eins eða fleiri flugvalla á landsbyggðinni.   Reglulegt flug til annnarra landshluta getur breikkað markhóp ferðaþjónustunnar, dreift álagi á landið, skapað atvinnutækifæri, aukið fjárfestingu og  tryggt framboð á þjónustu allt árið.

Nýlega ákvað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Niðurstaða hópsins á að geta nýst hvar sem er á landinu þó sérstaklega sé unnið með þessa tvo velli.

Innanlandsflugið getur einnig nýst betur til að dreifa ferðamönnum um landið. Nauðsynlegt er að horfa á tækifærin sem í því felast sem sérstakt verkefni og það ættu hagsmunaaðilar að kanna frekar. Þar þarf m.a. að huga að samgöngum milli Keflavíkurflugvallar  og Reykjavíkurflugvallar og því hvort þjónusta við ferðamenn geti bætt nýtingu í innanlandsflugi án þess að úr verði árekstrar við hlutverk flugsins í almenningssamgöngum.

Alvarleg aðför að samgöngum

Núverandi staða á Reykjavíkurflugvelli skapar hins vegar margháttað óöryggi. Mikilvægasti hluti innanlandsflugsins er að sjá fyrir almenningssamgöngum til landsvæða sem liggja fjarri höfuðborginni eða eru „eyjar“ með tilliti til annarra samgangna. Þessu hlutverki má ekki stefna í hættu með gerræðislegum vinnubrögðum borgaryfirvalda.

Nýlegar skýrslur vinnuhópa innanríkisráðherra um gjaldtöku og  félagshagfræðilega greiningu á innanlandsflugi sýna glöggt að íbúar landsins treysta á flugið en kostnaður við það er of hár. Þá sýna niðurstöður nýlegra kannana að margir íbúar landsins hafa áhyggjur af stöðu Reykjavíkurflugvallar og könnun MMR frá því í apríl 2015  sýnir að 78 % landsmanna vilja að  neyðarbrautin verið opin áfram.   Í Reykjavík eru 68 % á móti lokun brautarinnar.

Í fréttum í vikunni var vitnað til þess að braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, neyðarflugbrautin var notuð 128 sinnum á fyrstu 119 dögum þessa árs.  Lendingar og flugtök voru 54.590 á árinu 2014 og að fara þarf allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri notkun á flugvellinum.  Flugfélög og þeir sem nýta flugið, einstaklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir,  hafa orðið fyrir umtalsverðum viðbótarkostnaði vegna tíðrar röskunar á flugi í vetur og ekki væri kostnaðurinn og tafirnar minni ef brautirnar á vellinum væru færri.

Í ljósi þessa er það alvarlegt mál að nýlega gaf Reykjavíkurborg út framkvæmdaleyfi í nálægð við völlinn en ljóst er að þær framkvæmdir geta  vart haldið áfram í samræmi við áætlanir nema fyrst verði  farið í breytingar á skipulagsreglum borgarinnar.  Þessi ákvörðun  er í hæsta máta undarleg í ljósi þess að á sama tíma fjallar Samgöngustofa um möguleg áhrif af lokun flugbrautar 06/24 og að nefnd um könnun flugvallarkosta undir forystu Rögnu Árnadóttur hefur ekki lokið störfum.

Sameiginlegt hagsmunamál okkar allra

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sendi nýlega bréf til Reykjavíkurborgar þar sem  er áréttað er mikilvægi þess að Reykjavíkurborg fylgi gildandi  skipulagsreglum og virði þá stjórnsýslumeðferð sem nú er í gangi, hjá Samgöngustofu og Rögnunefndinni.

Þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram frumvarp á Alþingi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.  Þar er lagt er til að Alþingi beri ábyrgð á gerð skipulagsáætlana og taki þátt í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli.

Flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu er forsenda þess að flug geti gegnt hlutverki í almenningssamgöngum á landinu.  Í ljósi þessa hlutverks er því grundvallarkrafa að flugvöllurinn verði ekki skertur nema aðrar lausnir séu til staðar. Við verðum að horfa á heildar samspil millilandaflugs og innanlandsflugs í framtíðinni og nálgast málið af ábyrgð. Samgöngur í strjálbýlu landi eru ekki einkamál ákveðinna sveitarfélaga, heldur mikilvægt og sameiginlegt hagsmunamál okkar allra.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 15. maí 2015.