Categories
Greinar

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Deila grein

05/02/2016

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁ sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu í 10 liðum. Um var að ræða aðgerðaáætlun sem fól það m.a. í sér að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.

Einn liður tillögunnar fjallaði um að félags – og og húsnæðismálaráðherra ætti að skipa verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnastjórnin hafi m.a. það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.  Verkefnastjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014. Út frá þeirri vinnu komu síðar frumvörp sem nú er unnið að  í velferðarnefnd þingsins.

Aukum framboð og stuðning

Um er að ræða fjögur frumvörp, sem öll varða leigumarkaðinn. Margar umsagnir hafa borist um málin og eru flestar þeirra jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum, við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau verði sem fyrst að mikilvægum húsnæðisumbótum. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að leigan fari ekki yfir 20-25% af ráðstöfunartekjum.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð verulega og húsnæðisstuðningur miðast við fjölskyldustærð. Ætlunin er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög hefur það markmið að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, auka gagnsæi í rekstri þeirra og koma á auknu íbúalýðræði.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Fjölgun á leigumarkaði

En hvers vegna eru þessi frumvörp svona mikilvæg fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði? Hvers vegna er svona mikilvægt að þau nái fram að ganga? Jú það er vegna þess að

  • það er staðreynd að veruleg fjölgun hefur átt sér stað á leigumarkaði frá árinu 2008. Þannig voru 20,8 % heimila á Íslandi á leigumarkaði árið 2014, samanborið við 12,9 % árið 2008.
  • leigjendur á almennum leigumarkaði eru líklegastir til að hafa verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við aðra hópa á húsnæðismarkaði. Það er um verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað er að ræða þegar 40% eða hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum er varið í húsnæðiskostnað.

Auk þessa er óhætt að halda því fram að þær aðgerðir sem farið hefur verið í frá árinu 2008 og kostað 237 milljarða, hafa ekki komið til þessa hóps sem umrædd frumvörp eiga að ná til. Um er að ræða útgjöld til Íbúðarlánasjóðs, í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna.

Lækkum húsnæðiskostnað

Sumir vilja halda því fram að auknar húsnæðisbætur muni hækka leiguverð. Sem mótvægisaðgerð við þau sjónarmið var ákveðið að lækka fjármagnstekjuskatt á leigutekjur um 4 %, en þeirri aðgerð er m.a. ætlað að draga úr hækkunaráhrifum bótanna á leiguverð. Í umsögn Seðlabankans um málið segir að umrætt frumvarp muni skila sér í lægri húsnæðiskostnaði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði. Það passar vel við þær athugasemdir sem ráðgjafafyrirtækið Analityca hefur lagt fram um málið.

Heildarsamhengið mikilvægt

Þegar umrædd húsnæðisfrumvörp hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignasparnaðar. Jafnframt þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram í greiðslumati. Óhætt er að halda því fram að ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins vinni að heilum hug fyrir heimili landsins. Hvort sem um er að ræða þau heimili sem falla undir séreignastefnuna, heimili á leigumarkaði eða þau heimili sem falla undir húsnæðissamvinnufélög. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og því er mikilvægt að allar þessar aðgerðir nái fram að ganga.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2016.