Categories
Greinar

Ný neysluviðmið, já takk!

Deila grein

16/10/2014

Ný neysluviðmið, já takk!

Elsa-Lara-mynd01-vefurFyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Mælt var fyrir þingmannamálinu í þingsal þann 25. september s.l.  og nú hefur málinu verið vísað til Velferðarnefndar þingsins.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að útreikningarnir verði unnir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Þessir hlutaðeigandi aðilar geta t.d. verið frá ríki, sveitarfélögum, Hagsmunasamtökum heimilanna og verkalýðshreyfingunni. Eflaust eru fleiri aðilar sem gagnlegt væri að fá að borðinu. Við útreikning nýrra neysluviðmiða skal taka tillit til þeirra þátta sem núverandi neysluviðmið byggjast á en auk þess verði húsnæðiskostnaður tekinn með inn í dæmið. Í því samhengi verði horft til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.

Í þingsályktunartillögunni er m.a. lagt til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Reiknilíkanið verði opinbert eins og það er í þeim löndum sem við berum okkur oft saman við og má nefna Norðurlöndin í því samhengi.

Í störfum þingsins þann 15. október, minnti ég, fyrsti flutningsmaður tillögunnar á mikilvægi þess  að endurútreikningar á neysluviðmiðum fari fram. Ástæðan er sú að mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu og á samfélagsmiðlum undanfarna daga, m.a. vegna útreikninga á matarkostnaði í fjárlagafrumvarpi.  En fram hefur komið í fjölmiðlum að talsverður munur sé á milli þeirra útreikninga sem Fjármálaráðuneytið styðst við og þess sem Hagstofa Íslands miðar við. Það væri til bóta í allri umræðunni ef til væri tala sem hægt væri að vera sammála um að væri sú rétta um þennan kostnaðarlið sem öll heimili þurfa að bera.

Afar brýnt er að tillagan nái fram að ganga. Ný neysluviðmið eru mikilvæg fyrir heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Feyki 16. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.