Categories
Greinar

Snjallsími á hjólum

Deila grein

31/03/2015

Snjallsími á hjólum

haraldur_SRGBNýr tími er runninn upp í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Gatnakerfið ræður ekki við bílafjöldann. Langar bílabiðraðir myndast þegar fólk fer í og úr vinnu. Slíkt er afar óhagkvæmt fyrir samfélag okkar. Hvað er til ráða? Svörin eru mörg. Eitt þeirra er að innleiða nýja tækni. Internetið og farsími eru ekki gömul fyrirbæri. Þó ég sé aðeins 27 ára man ég þá tíma að þessi tækni var takmörkuð. Nú er internetið og farsíminn hluti af grunnþörfum fólks og ljósleiðaravæðing eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Þessa tækni er verið að setja í bíla og gera ökumenn óþarfa. Bílaframleiðendur eins og Mercedes Benz, General Motors, Audi og Volvo eru með tilraunabíla sem keyra mannlausir í lifandi borgum. Bílarnir skynja götuna, aðra í umferðinni, umferðarljós, gangstéttir og fleira.

Færri slys
Nær öll slys sem verða í umferðinni eru vegna mannlegra mistaka. Gætu sjálfkeyrandi bílar aukið umferðaröryggi og lækkað slysatíðni? Með interneti og farsímatækni geta bílarnir talað saman. Til dæmis ef einn bíll hægir á, þá veit öll bílaröðin af því. Það getur skipt sköpum því, fyrir hemlun bifreiða er viðbragðstími ökumanns 2,5 sek. Það þýðir að á 90 km/klst. hefur bíllinn farið yfir 60 m áður en stigið er á bremsurnar. Við blasir að ef viðbragðstíminn er færður niður í nánast núll með háhraðatækni, mun það auka öryggi. Þessi nýja tækni ætti að minnka til muna algengustu slys í umferðinni, aftanákeyrslur.

Færri umferðarteppur
Bílar framtíðarinnar verða rafmagnsknúnir og tala saman. Verði nógu margir bílar í snjallkerfinu, þurfa fæst okkar að eiga bíla lengur. Þetta gæti auðveldlega gerst á fjölmennustu stöðum landsins. Með snjallsímanum pantar fólk skutl með snjallbílnum og vegna fjölda þeirra þarf lítið að bíða og auðvelt verður að sameinast í bíla. Þetta kerfi ætti að vera ódýrara fyrir einstaklinga ef öll gjöld einkabíls eru reiknuð með. Einnig mun kerfið geta sparað mikinn ferðatíma með því að nota reikniaðferðina „bestun“ til að finna fljótlegustu leiðina því áfangastaður allra bíla er þekktur. Þannig ættu umferðarteppur að heyra sögunni til. Við Íslendingar eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að ýta á eftir ofangreindri tækniþróun. Þar geta stjórnvöld lagt hönd á plóg.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]