Categories
Greinar

Virkjum þau

Deila grein

23/01/2015

Virkjum þau

Jóhanna María - fyrir vefHérlendis er að finna hóp sem samanstendur af vel menntuðum einstaklingum, þessir aðilar hafa hlotið gráðu í ýmsum fræðum sem bæði er vöntun á hérlendis sem og gætu nýst okkur vel.

Ástæða þess að þessir aðilar geta ekki starfað á sínu sérsviði er sú að þeir hlutu menntun sína í öðru landi og menntun þeirra er af þeim ástæðum ekki metin til jafns við þá sem mennta sig hér heima.

Við höfum lækna, raftækni- og efnafræðinga sem starfa á matsölustöðum og við ræstingar. Þarna er ekki verið að hjálpa fólki að aðlagast og taka þátt í íslensku samfélagi.

Sumir hafa reynt að fá nám sitt og gráður samþykktar hérlendis en alltof margir fá þau svör að til þess þurfi viðkomandi að taka 3-4 ár í háskóla til að fá »íslenskan stimpil«. Það er ótrúlegt að fólk eigi að þurfa að endurtaka nám sem það hefur nú þegar lokið til að vera almennilega viðurkennt hérlendis.

Af samtölum mínum við einstaklinga í þessari stöðu eru margir sem segjast vera tilbúnir til þess að reyna við skólann aftur, en aðstæður þeirra eru svo margskonar að fæstir hafa möguleika á því þrátt fyrir vilja. Fólk er komið með fjölskyldur, hefur haft lág laun í einhvern tíma og sér ekki svigrúm til þess að leggja í kostnaðinn sem því fylgir að framfleyta fjölskyldu og vera í fullu námi.

Úrbætur
Sem betur fer eru einstaka fög að leita leiða til að bæta úr þessu en það á ekki að þurfa að knýja fólk fram aftur og aftur á milli skóla, starfsstétta og stofnana. Ef hérlendis væri byggt upp kerfi sem hjálpaði einstaklingum sem eru fullfærir í sínu fagi að aðlagast íslenskum aðstæðum sem að þeirra sérsviði snúa og verkferlum hérlendis þá eiga einstaklingar sem flytja til Íslands ekki að þurfa að byrja algjörlega upp á nýtt til að fá það staðfest að þeir hafi gengið í skóla.

Spurningin er líka hvort munur sé á þeim Íslendingum sem læra erlendis og koma svo til landsins aftur til að hefja störf og þeim einstaklingum sem ólust upp í öðru landi, lærðu þar og koma svo til Íslands til að hefja störf.

Það er brýnt að menntamálaráðherra leiti leiða til að hjálpa fólki sem flytur til Íslands að láta meta menntun þess. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og viljum að landið okkar taki vel á móti fólki sem vill flytja hingað, til þess þurfum við einmitt að búa til verkfæri til að láta það ganga. Virkjum þau sem hafa þekkinguna og getuna til starfa. Svo er aldrei að vita hvað við getum lært af þeim.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.