Categories
Fréttir

Forréttindi að geta notað endurnýjanlega orkugjafa

Deila grein

26/08/2016

Forréttindi að geta notað endurnýjanlega orkugjafa

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Við Íslendingar búum við þau forréttindi að geta notað endurnýjanlega orkugjafa og höfum náð ágætum árangri í því. En betur má ef duga skal því að burt séð frá öllum hugmyndum um virkjanir þarfnast dreifikerfið raforkunnar og áframhaldandi uppbygging þess verulegrar innspýtingar. Áætluð orkuþörf á hverjum tíma er byggð á raforkuspá og allt stefnir í það að flöskuhálsar í dreifikerfinu verði fleiri en eru nú verði ekki gripið til aðgerða. Þrátt fyrir að allar heimtaugar séu tilbúnar fyrir þriggja fasa kerfi eru um 30% háspennukerfisins enn einfasa. Það er verulega hamlandi fyrir alla atvinnustarfsemi eins og dæmin sanna og má benda á eitt nýlegt í Berufirði þar sem ungt fólk er að byggja upp atvinnustarfsemi en kemst ekki áfram í þeirri uppbyggingu vegna þessa.

Þetta þekkja því miður fleiri því að þrátt fyrir að öll endurnýjun kerfisins sl. 24 ár hafi miðast við þriggja fasa kerfi er staðan þessi.

Hæstv. forseti. Nú verður mönnum tíðrætt um rafbílavæðingu landsins og kosti hennar en ekki hefur verið gert ráð fyrir henni umfram það sem fram kemur í raforkuspá, enda er það svo að til samanburðar notar meðalheimili á rafhitunarsvæðum um tíu sinnum meiri orku en rafbíll þarf við meðalakstur. Fram kom í erindi Tryggja Þórs Haraldssonar um orkuskipti til lands og sjávar sem flutt var á vorþingi Samorku að hugsanlegir flöskuhálsar í raforkukerfinu til skemmri tíma gætu orðið staðbundin vandamál í lágspennukerfinu ef margir bílar eru hlaðnir á sama tíma og hugsanlega kallaði þetta á auknar fjárfestingar í sumarhúsahverfum og við fjölbýlishús svo dæmi sé tekið.

Hæstv. forseti. Þetta er hluti af áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, það að rafvæða heimilisbílinn er mun minna verkefni en að rafvæða vinnuvélar, rútur og stór farartæki. Heimilin eru ekki orkufrek, það er atvinnulífið aftur á móti. Mikilvægt er að stíga raunhæf skref í rétta átt og vera ekkert að dunda við það. Við eigum að setja markið hátt því að við getum það.“

Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 23. ágúst 2016.