Categories
Fréttir

Mikilvæg frumvörp um húsnæðismál

Deila grein

26/05/2016

Mikilvæg frumvörp um húsnæðismál

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða húsnæðismál en mikil vinna hefur farið í þann málaflokk í ráðuneyti hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur. Skipaður var starfshópur sem skilaði skýrslu sem má segja að hafi verið undanfari þeirra fjögurra frumvarpa sem hafa verið í meðförum og vinnslu hv. velferðarnefndar sem hefur unnið ötullega að þeim málum.
Þegar hefur eitt þeirra verið klárað, þ.e. frumvarp sem sneri að rekstrargrundvelli húsnæðissamvinnufélaga og stöðu búseturéttarhafa. Þá erum við á lokametrunum með frumvarp um almennar íbúðir, eða almennar félagsíbúðir eins og hv. nefnd lagði til að það héti. Tvö mál eru þá eftir. Annað er frumvarp um húsnæðisbætur tengt kjarasamningum eins og frumvarpið um almennu félagsíbúðirnar. Hitt sem stendur þá eftir er frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, endurflutt mál frá síðasta þingi, og snýr að réttarstöðu leigjenda og leigusala.
Nú í morgun kynnti hæstv. ráðherra húsnæðismála niðurstöður viðamikillar könnunar sem unnin var á vegum Gallup á viðhorfum leigjenda og húseigenda til húsnæðismarkaðarins. Þar er mikilvægi þeirra aðgerða sem felast í þessum frumvörpum í raun og veru staðfest. Þar kemur m.a. fram að fáir sem eru á leigumarkaði ná að leggja fyrir. Þar ríkir óvissa. Margir safna skuldum og eiga erfitt með að ná endum saman.
Allt að einu, virðulegi forseti. Þær aðgerðir sem felast í frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra eru nauðsynlegar eins og staðfest er í þessari rannsókn, en hvergi nægjanlegar. Þær eru þó mikið framfaraskref, ekki síst stuðningur við tekjulægri hópa, oft yngra fólk, en jafnframt sú framboðsaukning sem felst í byggingu 2.300 íbúða sem boðuð er í frumvarpinu.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 25. maí 2016.