Categories
Fréttir

Stóru málin í íslensku efnahagslífi

Deila grein

15/07/2015

Stóru málin í íslensku efnahagslífi

VilllumWillum Þór Þórsson, alþingismaður, velti upp hugleiðingum um „stóru málin í íslensku efnahagslífi“ á Alþingi á dögunum. Minnti hann á að í aðdraganda kjarasamninga hafi verið horft til hugmyndafræði þjóðarsáttarsamninganna, þríhliða samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins.
Willum Þór sagði svo: „Nú hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komið að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði með myndarlegum hætti með aðgerðapakka í 11 liðum þar sem sérstaklega var hugað að þeim tekjulægstu og millitekjuhópum. Breytingar á tekjuskatti fela í sér heildarlækkun upp á 16 milljarða sem munu hækka ráðstöfunartekjur allra launþega og mun hækkun ráðstöfunartekna ná til 65% launamanna sem dæmi og hækka ráðstöfunartekjur þeirra um 50–100 þús. kr. á ári. Þá mun ríkisstjórnin í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins stuðla að hraðri uppbyggingu á húsnæðismarkaði og átaki í húsnæðismálum til handa tekjulægri fjölskyldum.“
Er það mat Willum Þórs að ríkisstjórnin hafi svarað kalli þjóðarsáttar í kjarasamningum með myndarlegum hætti. „Á sama tíma hefur ríkisstjórnin nú boðað áætlun um afnám hafta sem er í senn trúverðug og söguleg, svo vel útfærð og vönduð, svo umfangsmikið verkefni að hún verður kennslubókarefni framtíðarinnar svo vitnað sé í Lee Buchheit.“
„Aðilar vinnumarkaðarins, forseti ASÍ og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telja áætlunina létta á íslensku atvinnulífi og treysta forsendur stöðugleika og þannig til þess fallin að styrkja nýgerða kjarasamninga. Það er ljóst, virðulegi forseti, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stendur við stóru orð,“ sagði Willum Þór að lokum.