Categories
Greinar

Glataðir snillingar

Deila grein

16/07/2016

Glataðir snillingar

Karl_SRGBFæreyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem hafa villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Karl Garðarsson

Greinin birtist á www.blog.pressan.is/karlg 15. júní 2016.