Categories
Fréttir

Mynd af forsætisráðherra boðin upp til styrktar Barnaspítala hringsins og langveikum börnum

Deila grein

27/11/2015

Mynd af forsætisráðherra boðin upp til styrktar Barnaspítala hringsins og langveikum börnum

20151123_141643Listakonan Ýrr Baldursdóttir tattoo- og airbrush meistari, sem málað hefur andlitsmynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, hefur lánað verkið á skrifstofu Framsóknarflokksins þar sem það mun hanga uppi til sýnis næstu vikur, eða þar til það verður selt í þágu góðs málefnis.
Verkið er í góðri stærð og er unnið með airbrush tækni og Ýrr segir að kveikjan að verkinu sé að hún hafi viljað skapa verk sem gæti safnað peningum fyrir gott málefni. Myndir eftir Ýrr hafa vakið athygli að undanförnu, nú síðast stór mynd af Arnari Gauta sem hún vann fyrir hann sjálfan.
Ýrr og Gilbert Sigurðsson umboðsmaður hennar leggja áherslu á að allur ágóði af sölunni renni til  Barnaspítala Hringsins og langveikra barna. Öllum er frjálst að bjóða í verkið, sem eins og fyrr sagði er hægt að skoða nánar á skrifstofu flokksins á Hverfisgötu 33, og lágmarksverð er 300 þúsund krónur.
Ýrr hefur áður unnið verk sem hafa verið seld til styrktar góðgerðamála, þar á meðal málaði hún gítar fyrir hljómsveitina Skálmöld sem var seldur á 500 þúsund sem runnu til samtakanna Blátt áfram. Hún er einnig með verk í vinnslu fyrir Barnaspítala Hringsins sem byggir á sögu sem hún bjó til sem barn um þorp kærleika þar sem allir eru velkomnir og börn eiga víst afdrep frá því sem hrjáir þau í raunveruleikanum. Þá er stór sýning á verkum Ýrrar í bígerð og eitt þekktasta tímarit heims um þrívíddarlist er að vinna að umfjöllun um hana og list hennar.
Ýrr og Gilbert vonast til að myndin af Sigmundi Davíð, og sams konar mynd sem Ýrr hefur gert af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, muni seljast fljótt og vel svo að hægt sé að veita rausnarlegan styrk nú í jólamánuðinum til þessara mikilvægu málefna sem að svo margar fjölskyldur treysta á í erfiðleikum sínum.
Þeir sem vilja leggja málefnunum lið með því að kaupa myndina geta haft beint samband við Gilbert Sigurðsson í síma 775 3268, og einnig má skoða fleiri verk eftir Ýrr og hafa samband við hana á facebook síðu hennar – www.facebook.com/Valkyrjart.
Við þökkum Ýrr og Gilbert kærlega fyrir að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim og hvetjum þá sem vilja láta gott af sér leiða til góðra málefna til að koma við á skrifstofunni og skoða verkið.