Categories
Fréttir

Vanhugsað að samþykkja kosningar í haust

Deila grein

25/05/2016

Vanhugsað að samþykkja kosningar í haust

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Um þessar mundir birtast margar jákvæðar fréttir af lífskjörum þjóðarinnar. Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar ASÍ eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi næstu átta ár. Vöxturinn hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu missirum.
Laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum en skuldir heimilanna hafa lækkað mikið á síðustu árum og vanskilum fækkað verulega. Veðsetningarhlutfall heimilanna hefur einnig lækkað mikið. Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa tekist mjög vel og styrkt stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt. Staða ríkissjóðs hefur stórbatnað vegna vel heppnaðrar áætlunar um losun hafta og stöðugleikaframlög og erlend staða þjóðarbúsins er sú besta í a.m.k. hálfa öld.
Það sem af er kjörtímabilinu hefur 40 milljörðum kr. verið varið til heilbrigðismála. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum kr. hærri árið 2021. Mikil vinna hefur verið lögð í að skapa nýtt húsnæðiskerfi og jafna stöðu leigjenda og húseigenda en ég geri ráð fyrir að Alþingi samþykki þrjú að fjórum frumvörpum húsnæðismálaráðherra á næstu dögum, þ.e. húsaleigulög, almennar íbúðir og húsnæðisbætur. Frumvarp um húsnæðissamvinnufélög hefur þegar verið samþykkt.
Við hljótum að geta verið sammála um að þetta er einstakur árangur á aðeins þremur árum. Hagvöxtur og stöðugleiki kemur öllum til góða. Í ljósi þess tel ég að það hafi verið vanhugsað að samþykkja kosningar nú í haust. Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið með því að leyfa núverandi ríkisstjórn að klára kjörtímabilið, að hún fái að halda áfram með aðkallandi verkefni — og helst næsta, já — og leggja frekari grunn að áframhaldandi framförum hér á landi og uppbyggingu í landinu öllu.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 24. maí 2016.